„Ég er ofboðslega stolt af því að vera á leið á mitt fjórða mót. Ég er stolt af sjálfri mér og stolt af liðinu að vera komið aftur inn í þessa stórmótalúppu. Nú reynir á að halda sér inni á komandi stórmótum, að detta ekki út eins og við gerðum af því að það er erfitt að komast inn aftur,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, hægri hornamaður íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið.
Ísland hefur leik á EM 2024 í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss á föstudaginn og tekur þá þátt á sínu þriðja Evrópumóti, öðru stórmóti í röð og fimmta stórmóti frá upphafi. Þórey, sem er 35 ára gömul, tekur nú þátt á sínu fjórða stórmóti í röð en það var einungis á EM 2010 sem hún var ekki með.
Síðast tók Þórey þátt á Evrópumóti árið 2012 en Ísland vann Forsetabikarinn á HM 2023 á síðasta ári. Tólf ár eru því síðan hún lék síðast á Evrópumóti, sem Þórey fer ekki í grafgötur með að séu töluvert erfiðari mót.
„Á EM eru öll liðin alltaf hrikalega sterk. Þetta er náttúrlega svolítil Evrópuíþrótt, handbolti, og EM er klárlega sterkasta mótið. Það eru fjögur lið í riðli, aðeins tvö sem komast upp úr honum.
Þetta gæti verið stutt gaman en við sjáum samt sem áður alveg möguleika. Það getur allt gerst, það þarf ekki nema einn leik til að breyta landslaginu. Á HM getur maður lent á fleiri óvæntum úrslitum og fleiri „léttari“ leikjum.
Þar eru fleiri slök lið og fyrir lið sem er ekki í topp tíu í heiminum getur það verið skemmtilegra. En nú reynir á að máta sig á sterkasta vettvanginum og við ætlum okkur klárlega að gera það og halda áfram að bæta okkur,“ sagði Þórey Rósa ákveðin.
Ísland er í F-riðli með Hollandi, Þýskalandi og Úkraínu. Holland og Þýskaland eru sérlega sterk og því viðbúið að það verði erfitt fyrir Ísland að ná öðru af tveimur efstu sætunum og komast í milliriðil. Þórey sagði Holland og Þýskaland áþekk að getu en ekki væri útilokað að velgja þeim undir uggum.
„Það er nefnilega ekki mjög mikill munur á Hollandi og Þýskalandi. Þetta eru bæði ofboðslega sterk lið. Holland hefur náð aðeins betri árangri en Þýskaland á síðustu árum. En Þýskaland hefur verið vaxandi og núna er Holland að ganga í gegnum viss kynslóðaskipti.
Þær eru ótrúlega sprækar þessar ungu stelpur sem eru að koma upp hjá Hollandi. Keppniskonan ég horfi svolítið í það að ég hef séð bæði lið misstíga sig. Ég hef horft á bæði lið eiga drulluhálfleiki og það væri vel þegið að fá þá á móti okkur!“
Viðtalið við Þóreyju má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.