Eitt af betri liðum heims

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari ræðir við fréttamenn í Innsbruck í dag.
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari ræðir við fréttamenn í Innsbruck í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, segir fiðring og tilhlökkun ríkja á meðal leikmanna fyrir fyrsta leik á EM 2024 í Innsbruck í Austurríki. Þá mætir Ísland sterku liði Hollands.

„Tilfinningin er góð. Við erum búin að bíða lengi eftir þessu og það er tilhlökkun í hópnum að takast á við þetta. Auðvitað er eðlilegt að það sé fiðringur, það er smá spenna og þannig viljum við líka hafa það. Við viljum aðeins finna fyrir því,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is í dag.

Eyjamaðurinn er ánægður með undirbúninginn fyrir Evrópumótið. Ísland vann Pólland tvívegis í vináttulandsleikjum í síðasta mánuði og tapaði svo með minnsta mun fyrir Sviss í tvígang í síðustu viku.

„Heilt yfir hefur undirbúningurinn gengið vel. Við byrjuðum þetta þannig séð fyrir rúmum mánuði síðan heima á Íslandi þegar við spiluðum tvo góða leik við Pólland.

Svo héldum við áfram á móti Sviss og áttum þar hörkuleiki sem við tökum helling út úr þó þeir hafi ekki unnist. Þá er allur aðbúnaður í kringum liðið, bæði hér og í Sviss, til fyrirmyndar þannig að við erum sátt við undirbúninginn,“ sagði hann.

Skiptir ofboðslega miklu máli

Holland er með eitt sterkasta lið heims og því ærið verkefni sem bíður Íslands.

„Þetta er hörkulið og eitt af betri liðunum í heiminum í dag. Þær hlaupa mikið og keyra grimmt fram völlinn. Við þurfum að vera tilbúnar að taka á móti þeim. Þær eru beinskeyttar og spila fjölbreyttan sóknarleik þar sem margir leikmenn eru með hlutverk.

Við þurfum, eins og alltaf, að hlaupa með þeim. Við þurfum að ná að stilla okkur upp í vörn, standa vel á móti þeim og taka þannig á móti mjög góðu liði,“ sagði Arnar.

Von er á 100-150 Íslendingum sem munu styðja við bakið á íslenska liðinu. Landsliðsþjálfarinn sagði stuðninginn afskaplega mikilvægan.

„Það skiptir bara ofboðslega miklu máli svona í fyrsta leik þar sem er spenna og fiðringur til staðar. Það er frábært að vita af því að það séu Íslendingar hérna og að það sé töluverður hópur á leiðinni. Það hjálpar okkur að eiga við það verkefni sem við erum að fara í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka