„Við komum til Austurríkis í gær [á þriðjudag] en við komum til Sviss á fimmtudaginn í síðustu viku. Við erum búin að vera hérna nokkra daga,“ sagði Hafdís Renötudóttir, markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik.
Íslenska liðið er í Innsbruck í Ausuturríki þar sem það tekur þátt í F-riðli EM 2024. Fyrsti leikur er á morgun gegn Hollandi.
„Hér í Austurríki er búið að vera ótrúlega indælt. Það er ótrúlega góður matur, góð höll, góð umgjörð og svona stórmótafílíngur, sem er mjög gaman,“ sagði Hafdís í samtali við mbl.is á liðshótelinu í borginni í gærkvöldi.
Markvörðurinn hávaxni tekur nú þátt á sínu öðru stórmóti í röð eftir að hafa farið einnig á HM 2023 í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.
„Þetta er annað stórmótið okkar en þetta er ekki sama stórmót. Það er svona það skemmtilega við þetta. Við erum að upplifa EM í fyrsta skipti. Það er líka mikil tilhlökkun fyrir því.
Það er meira í húfi af því að það er enginn Forsetabikar eins og síðast. Við þurfum bara að standa okkur almennilega og koma okkur upp í milliriðil,“ sagði Hafdís. Ísland vann Forsetabikarinn á HM 2023.
Hún sagði Evrópumót vera erfiðari en heimsmeistaramót, ekki síst vegna þessa skorts á keppni liða sem komast ekki í milliriðil.
„Það er í raun aukin pressa vegna þess að það grípur þig ekkert ef þú lendir ekki í fyrstu tveimur sætunum. Því þurfum við að standa okkur almennilega, við þurfum að gera allt alveg ótrúlega vel til þess að það gangi upp hjá okkur.
Við getum það. Við unnum Pólverja tvisvar í röð, það er ekki tilviljun. Ég er full tilhlökkunar fyrir þennan leik. Við ætlum að gera okkar besta. Okkar ofurkraftur er pínu að við séum litla liðið en við erum ótrúlega góðar.“
Hafdís er ánægð með að um 100-150 Íslendingar séu á leið til Innsbruck til þess að styðja við liðið. Þeirra á meðal eru fjölskyldumeðlimir leikmanna.
„Ég held að það séu flestir í liðinu að fá einhvern úr fjölskyldum sínum. Það er voðalega gaman. Það er gaman bæði fyrir fjölskyldumeðlimina sem eru að koma og okkur að sjá fjölskyldur okkar uppi í stúku. Í krafti fjöldans getur allt gerst,“ sagði hún að lokum.