Fékk gæsahúð svona átta sinnum

Steinunn Björnsdóttir fagnar í kvöld.
Steinunn Björnsdóttir fagnar í kvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

Steinunn Björnsdóttir lék sinn fyrsta leik á stórmóti með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar hún skoraði þrjú mörk í 27:25-tapi fyrir Hollandi í fyrstu umferð F-riðils EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í kvöld.

„Það eru rosalega blendnar tilfinningar. Ef ég byrja á liðinu þá er ég gríðarlega stolt af þessari frammistöðu hjá okkur í kvöld. Ég hefði alltaf tekið því fyrir fram að vera í svona gríðarlega spennumiklum leik á móti þessari sterku þjóð og eiga möguleika á að vinna.

En á sama tíma er svekkjandi að hafa ekki klárað þetta. Í síðasta leikhléinu vorum við staðráðnar í að vinna þær og ég fann að það var mikil trú í liðinu. Svo fyrir mig sjálfa er sturlað að vera búin með minn fyrsta leik á EM.

Þetta er stórt svið og það var gaman að sjá allt þetta fólk uppi í stúku. Ég viðurkenni að ég fékk gæsahúð svona átta sinnum í þessum leik,“ sagði Steinunn, sem er 33 ára, í samtali við mbl.is eftir leik.

Stolt af frammistöðunni

Hún sagði ekki mikið hafa vantað upp á hjá Íslandi til þess að vinna leikinn.

„Það er svo stutt á milli. Svona fyrst um sinn eru það kannski hlaupin heim. Við vorum kannski að hlaupa vel heim í vörnina en vorum bara ekki alveg nógu skipulagðar þegar við vorum komnar heim. Það var svona seinna tempó í þessum mörkum sem þær voru að skora á okkur.

En svo er stutt á milli eins og ef við hefðum skorað þarna úr miðjuskotinu, þá er þetta svo lítið. Þær eru rosalega líkamlega sterkar og fastar fyrir. En fyrst og fremst er ég mjög stolt af þessari frammistöðu hjá okkur.“

Hef fylgst lengi með hollenska liðinu

Frammistaða Íslands í leiknum gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið.

„Já, algjörlega. Ég viðurkenni að þetta hollenska lið er það lið sem maður hefur fylgst hvað mest með ásamt þessu norska liði.

Það er eiginlega pínu súrrealískt að vera í svona leik á móti þeim þar sem munurinn er svona lítill, á móti stelpum sem maður er búinn að vera að fylgjast með síðan maður var lítill. Þetta gerir helling fyrir okkur og ég hlakka til framhaldsins,“ sagði Steinunn að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert