Svekktur en stoltur

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari segir leikmönnum til á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari segir leikmönnum til á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, viðurkenndi að hann væri svekktur eftir 27:25-tap fyrir sterku liði Hollands í fyrstu umferð F-riðils EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í kvöld.

„Ég er svona aðeins að jafna mig. Ég er búinn að tala við RÚV og EHF þannig að ég er aðeins að koma niður en það eru tilfinningar. Það er bara þannig að ég er svekktur að hafa tapað þessum leik vegna þess hvernig við spiluðum og hvernig stelpurnar stóðu sig.

Á sama tíma er ég líka stoltur af því hvernig þær mæta í þennan leik og spila hann. Í fyrri hálfleik vorum við svolítið við stjórn að spila okkar leik. Að hlaupa með þeim endalaust er erfitt. Mér fannst við gera það mjög vel og er mjög ánægður með það.

Í seinni hálfleik lendum við í smá áhlaupi frá þeim, sem við svöruðum svo aftur. Ég er rosalega stoltur af því líka, við gerum úr þessu leik aftur. Heilt yfir get ég ekki verið annað en ánægður með þessa frammistöðu,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leik.

Ofboðslega gott lið

Spurður hvort of margir tapaðir boltar hefðu verið það sem skildi á milli feigs og ófeigs í kvöld sagði hann:

„Já, kannski er það niðurstaðan eins og alltaf, það eru þessir töpuðu boltar. En við erum líka að spila á móti ofboðslega góðu liði. Þegar upp er staðið eru þarna leikmenn sem eru að koma af Ólympíuleikum, sem voru saman í einn og hálfan mánuð í sumar.

Þarna eru stelpur sem eru að spila með mörgum af bestu liðum Evrópu, eru í Meistaradeildinni. Ég ætla kannski ekkert að horfa á einn ákveðinn þátt í okkar leik heldur frekar að gefa þeim það að þær kláruðu þetta vel og eru feikisterkar.“

Arnar sagði frammistöðu Íslands vita á gott en að nú þyrfti liðið að láta kné fylgja kviði og halda áfram þar sem frá var horfið gegn Úkraínu á sunnudag.

„Já, auðvitað gerir hún það en við þurfum að halda þessu áfram. Nú þurfum við strax í kvöld að fara í endurheimt, sinna henni einnig vel á morgun og byrja að undirbúa okkur fyrir Úkraínu. Það er bara annar leikur og við þurfum að sýna fram á að þetta sé okkar leikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka