Þakklæti var Þóreyju Rósu Stefánsdóttur, hægri hornamanni íslenska landsliðsins í handknattleik, efst í huga eftir að liðið vann sinn fyrsta leik frá upphafi á lokamóti EM með því að leggja Úkraínu að velli, 27:24, á EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í kvöld.
„Ég er svo þakklát fyrir að við kláruðum þennan leik og ég er svo þakklát fyrir að Hollendingarnir kláruðu sinn leik líka í dag líka þannig að við eigum hreinan úrslitaleik í vændum.
Ég er svo þakklát fyrir að fá þann leik og sama hvernig hann fer. Þjóðverjar eru einhvern veginn með bakið upp við vegg og við höfum einhvern veginn engu að tapa og allt að vinna. Ég er þakklát fyrir allt akkúrat núna,“ sagði himinlifandi Þórey Rósa í samtali við mbl.is eftir leik.
Um kaflaskiptan leik var að ræða þar sem Ísland var með yfirburði í fyrri hálfleik en átti erfiðara uppdráttar í þeim síðari.
„Við fundum ekki sama takt í seinni. VIð vorum ekki að ná þessum auðveldu mörkum sem við vorum að ná í fyrri hálfleik. Við þurftum að hafa meira fyrir mörkunum. Við vorum að standa kannski pínu vonda vörn og svo vorum við alltaf að missa einhver svona drullumörk inn.
Það tók svolítið taktinn úr okkur og svo fékk maður kannski smá hnút í magann í seinni en aftur, þá er ég þakklát fyrir að við kláruðum þennan leik og fyrir að við héldum út.
Díana [Dögg Magnúsdóttir] var kaldur haus þarna í lokin. Ég sá það og sagði það þegar ég var komin á bekkinn, ég sagði: „Díana klárar þetta fyrir okkur.“ Hrós á hana, hrós á okkur allar og já, til hamingju Ísland! Til hamingju við, fyrsti sigurinn á EM,“ sagði hún um leikinn.
Þórey Rósa var ánægð með að sjá og heyra í stuðningsmönnum Íslands í Ólympíuhöllinni í Innsbruck í kvöld.
„Það var dásamlegt. Maður reynir að taka allt inn eins og maður mögulega getur. Ég segi ekki annað en að ég er þakklát fyrir að fólk sé komið að styðja okkur. Maður sér að þau hafa gaman og það smitar inn á völlinn þar sem við höfum gaman.
Við viljum standa fyrir þetta. Við viljum standa fyrir útgeislun, við viljum standa fyrir að vera liðið sem er með frábæra liðsheild innan vallar sem utan. Við höfum sýnt það á öðrum stórmótum líka, bæði karla og kvenna. Þetta er það sem við viljum gera og standa fyrir,“ sagði reynsluboltinn að endingu.