„Þetta er svo geggjað! Svo geggjað!“ sagði kampakát Andrea Jacobsen í samtali við mbl.is eftir að hún og liðsfélagar hennar í íslenska landsliðinu í handbolta sigruðu það úkraínska, 27:24, á Evrópumótinu í kvöld.
Sigurinn er sá fyrsti hjá Íslandi á lokamóti EM og fram undan er úrslitaleikur við Þýskaland á þriðjudaginn þar sem sæti í milliriðli er undir.
„Það er þvílíkur léttir að vera búinn að ná þessum sigri og geta einbeitt sér að leiknum á þriðjudaginn eða mánudaginn? Ég veit ekki einu sinni hvaða dagur er. Ég er ógeðslega ánægð með þetta,“ sagði Andrea létt.
Íslenska liðið lék gríðarlega vel í fyrri hálfleik en það hægðist örlítið á liðinu í seinni hálfleik. Forskotinu var hins vegar ekki ógnað að ráði.
„Við byrjuðum aðeins að skipta í seinni og dreifa álagi. Við keyrðum miklu meira í fyrri en í seinni. Það vantaði smá orku í lokin en þetta varð aldrei spennandi. Þetta var öruggur sigur,“ sagði Andrea.
Hún viðurkenndi að hún hafi ekki endilega átt von á að Ísland kæmist í úrslitaleik um sæti í milliriðli á sjálfu Evrópumótinu.
„Ef þú hefðir sagt við mig fyrir mót að það væri möguleiki á að fara í milliriðla hefði ég dregið það í efa. Þetta er þvílík gulrót og ég get ekki beðið,“ sagði hún.
Andrea vildi koma þökkum á framfæri til stuðningsmanna Íslands, sem voru glæsilegir í kvöld.
„Eitt orð: Vá! Það eru 200 manns þarna uppi með brjáluð læti og ég vil bara segja takk,“ sagði Andrea.