„Tilfinningin er ótrúlega góð. Ég er glöð og stolt af liðinu. Ég er þakklát fyrir að vera hérna. Þetta var markmiðið, að ná í sigur, og við erum ótrúlega ánægðar með okkur,“ sagði Sunna Jónsdóttir, fyrirliði Íslands, eftir sögulegan sigur á Úkraínu á EM 2024 í handknattleik í kvöld.
Leiknum lauk með 27:24-sigri Íslands eftir að staðan hafði verið 16:9 í hálfleik, Íslandi í vil. Hálfleikarnir tveir voru því ólíkir.
„Við byrjuðum frábærlega. Úkraína er ekki með slæmt lið en við settum tóninn strax í byrjun og vorum mjög fastar fyrir í vörn, fengum góða markvörslu og keyrðum vel á þær.
Svo spila þær sig svolítið inn í leikinn og við verðum aðeins stressaðar. Ég er svo ótrúlega stolt af okkur að hafa haldið haus, brotnað ekki, haldið áfram og klárað þetta með sigri. Það er mjög stórt fyrir okkur.
Það eru auðvitað fullt af hlutum sem við getum skoðað og gert betur og svo var fullt af hlutum sem við gerðum vel. Hvað handboltann varðar er hægt að skoða hitt og þetta, en hugarfarið, hvernig við mætum í leikinn og klárum þetta með sigri, er frábært,“ sagði Sunna við mbl.is eftir leikinn.
Hún kvaðst spennt fyrir því að Ísland eigi nú hreinan úrslitaleik gegn Þýskalandi um að komast upp úr F-riðli og í milliriðil.
„Svo er það, að vera í þessari stöðu og eiga úrslitaleik á þriðjudaginn við Þýskaland. Það er geðveikt og við hlökkum til. Þetta eykur sjálfstraustið, við vorum með góða tilfinningu eftir Hollandsleikinn.
Þannig að við erum hérna, við njótum þess að vera hérna, höldum áfram að bæta okkur og horfa í okkar frammistöðu. Svo erum við að fara í úrslitaleik og þar getur allt gerst.“