„Ég get varla lýst þessu en þetta er stórkostlegt og dásamlegt,“ sagði Rut Jónsdóttir, landsliðskona í handbolta, í samtali við mbl.is eftir að Ísland vann Úkraínu, 27:24, á lokamóti EM. Sigurinn var sá fyrsti hjá íslenska liðinu á EM.
„Við spiluðum stórkostlega í fyrri hálfleik og mér fannst við mun betri. Það hefði verið gaman að vinna stærra en ég er ótrúlega ánægð að við héldum þetta út. Þær minnkuðu þetta í þrjú en það var samt ró hjá okkur í lokin og við sigldum þessu heim. Ég er mjög ánægð.“
Ísland mætir Þýskalandi á þriðjudag og með sigri þar tryggir íslenska liðið sér sæti í milliriðli.
„Það er spennandi og gaman að fara í fyrsta leikinn með möguleika á að fara áfram. Það er allt að vinna fyrir okkur. Við eigum eftir að skoða Þýskaland betur en við vitum að þær eru mun betri en liðið sem við mættum í dag en það er allt hægt í handbolta.
Mér finnst við vera á góðri ferð undanfarið og það er mikil bæting á liðinu. Við förum jákvæðar og spenntar í næsta leik þótt við vitum að við erum að fara að mæta sterkari andstæðingi,“ sagði Rut.
Hún var ánægð með magnaðan stuðning íslensku stuðningsmannanna í kvöld.
„Maður fær gæsahúð við að heyra í þeim fyrir aftan sig. Það er magnað að horfa upp í stúku og sjá brosin og stuðninginn. Þetta gefur liðinu ekkert smá mikið. Það er æðislegt að spila fyrir framan þetta fólk,“ sagði Rut.