Mikill þungi í þeim

Arnar Pétursson ræðir við fréttamenn á liðshótelinu í Innsbruck í …
Arnar Pétursson ræðir við fréttamenn á liðshótelinu í Innsbruck í gær. Ljósmynd/Jon Forberg

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, býst við hörkuleik gegn Úkraínu í annarri umferð F-riðils EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í kvöld.

Ísland tapaði með tveimur mörkum fyrir Hollandi í fystu umferð á föstudagskvöld. Síðar um kvöldið steinlá Úkraína svo fyrir Þýskalandi, 30:17.

„Leikurinn þeirra við Þýskaland segir okkur kannski meira um styrk þýska liðsins heldur en um Úkraínu. Þær eru með frábært lið og hertu tökin eftir því sem leið á leikinn í gær [á föstudag].

En samt sáum við það þá og höfum séð það í tveimur vináttuleikjum sem þær spiluðu í aðdraganda mótsins að þær eru vel þjálfaðar. Þetta eru líkamlega sterkir leikmenn, mikið afl í þeim og þær spila 6-0 vörn af festu og eru grimmar,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is í gær.

Væri rosalega sætt

„Í sóknaraðgerðum er líka mikill þungi í þeim, þær koma í árásir í maður á mann eða kona á konu. Það er þungi í þeim árásum og svo klippingar í kjölfarið.

Við þurfum að undirbúa okkur vel en þurfum fyrst og fremst að halda áfram að fókusa á okkur og gera eins vel og hægt er,“ bætti hann við.

Spurður hvort hann væri bjartsýnn á fyrsta sigur íslenska kvennaliðsins á Evrópumóti í kvöld sagði Arnar að lokum:

„Auðvitað væri það rosalega sætt. Það væri rosalega gaman að ná því en ég held mig við það að fókusinn er núna á okkar frammistöðu og að gera eins vel og hægt er. Þá er aldrei að vita hvað gerist.“

Leikur Íslands og Úkraínu hefst klukkan 19.30 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert