„Tilfinningin er mjög góð, eiginlega bara frábær,“ sagði ánægður Arnar Pétursson landsliðsþjálfari eftir fyrsta sigur íslenska kvennalandsliðsins á Evrópumóti. Liðið lagði Úkraínu á EM 2024 í kvöld.
„Það er ótrúlega sætt að fá að fylgja stelpunum í gegnum þessa vegferð og uppskera. Við erum bæði búin að ná því að komast inn á þetta lokamót og ná fyrsta sigrinum og það skiptir okkur og íslenskan kvennahandbolta ofboðslega miklu máli,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leik.
Ísland keyrði yfir Úkraínu í fyrri hálfleik enda staðan 16:9 í hálfleik en átti í meiri erfiðleikum í þeim síðari.
„Við spiluðum frábærlega í fyrri hálfleik og vorum ógeðslega góðar. Það verður að segjast alveg eins og er. Við lentum í smá brasi með sjö á sex en svöruðum því. VIð komum mjög glaðar inn í hálfleik, mjög ánægðar með það sem við vorum að gera og ætluðum klárlega að halda því áfram.
En ég held að við höfum líka séð og fundum það kannski öll að það styttist í raun veru í eitthvað þarna handan við hornið sem skiptir okkur ofboðslega miklu máli. Það kannski stífnaði aðeins upp okkar leikur.
Það er kannski ekkert óeðlilegt en stórt hrós á stelpurnar fyrir að hafa klárað þetta eins og þær gerðu,“ sagði hann um leikinn í kvöld.
Sigurinn þýðir að Ísland mætir Þýskalandi í hreinum úrslitaleik um hvort liðið fylgir Hollandi upp úr F-riðli í milliriðil í Vín.
„Það er frábært að fá tækifæri til þess að spila úrslitaleik. Það er náttúrlega gegn feikisterku liði en það skiptir okkur bara miklu máli að vera að fara í leik sem skiptir þetta miklu máli. Við lærum af þessu, við fáum reynslu út úr þessu.
Alveg sama hvernig það fer og hvernig þetta spilast munum við alltaf geta tekið eitthvað með okkur úr þessu inn í framtíðina. Það er ofboðslega mikilvægt,“ sagði Arnar.
Hann var eins og leikmenn ánægður með stuðning íslenska stuðningsmannanna í Ólympíuhöllinni í Innsbruck í kvöld.
„Það er frábært fyrir okkur að hafa þetta fólk á bak við okkur. Við fundum alveg að þetta var erfitt um tíma í seinni hálfleik en þá var nóg að heyra hvatninguna eða horfa upp í stúku. Þá fann ég orku og stelpurnar klárlega inni á vellinum og það hjálpaði mikið. Það er ómetanlegt.“