Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, er búinn að leggja leik liðsins gegn því hollenska á föstudagskvöld að baki sér og einbeitir sér alfarið að næsta leik gegn Úkraínu á EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í kvöld.
„Líðanin er bara góð. Auðvitað erum við eins og alltaf fyrst og fremst að horfa í frammistöðuna og hún var góð í gær [á föstudag]. Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir hana gegn mjög sterku liði.
Auðvitað eru alltaf einhverjir hlutir sem maður sér eftir á að við hefðum alveg getað gert aðeins betur og þá hugsanlega stolið stigi eða stigum.
En við förum ekkert út af brautinni, við horfum á frammistöðuna og við hana er ég mjög sáttur,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is á hóteli íslenska liðsins í Innsbruck í gær.
Rætt var við landsliðsþjálfarann í hádeginu í gær og lék blaðamanni forvitni á að vita hvernig hafi gengið að skilja við Hollandsleikinn, sem lauk með naumu tveggja marka tapi.
„Það gengur bara alveg ágætlega. Við gerðum það svolítið þannig að þegar maður sofnaði í [fyrri]nótt lagði maður þann leik bara frá sér. Maður vaknar svo í [gær]morgun og er þá kominn algjörlega með hugann við Úkraínu og þær eru líka sterkar.
Við töluðum um það í gær [á föstudag] að við ætluðum að hefja endurheimt strax og byrja að huga að næsta leik. Það verða tveir fundir í dag [í gær] þar sem við förum yfir Úkraínu og aftur tveir fundir á morgun [í dag] þar sem við leggjum upp okkar leik gegn þeim, hvernig við ætlum að gera þetta,“ sagði Arnar einnig.