„Fæ gæsahúð þegar þú segir þetta!“

Elín Klara Þorkelsdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir sitja fyrir á …
Elín Klara Þorkelsdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir sitja fyrir á ljósmynd eftir sigurinn á Úkraínu í gærkvöldi. Ljósmynd/Jon Forberg

Katrín Anna Ásmundsdóttir skoraði sitt fyrsta mark á stórmóti þegar Ísland vann Úkraínu 27:24 á EM 2024 í handknattleik í gærkvöldi og tryggði sér þannig fyrsta sigurinn frá upphafi á Evrópumóti.

„Tilfinningin er mjög góð. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt eftir þennan leik og það var erfitt að sofna í gær. Við vorum held ég allar í sama pakkanum.

Við fórum ekki í morgunmat, það fór enginn að sofa fyrr en klukkan tvö,“ sagði Katrín Anna í samtali við mbl.is á liðshótelinu í Innsbruck í Austurríki í dag.

Hvernig var það fyrir þig að taka þátt í fyrsta sigri liðsins í sögunni á EM?

„Ég fæ bara gæsahúð þegar þú segir þetta! Það er geðveikt. Ég var alveg að hugsa um hvað það væri geðveikt eftir tíu til tuttugu ár að fá að segja það að ég hafi verið hluti af þessum sigri,“ sagði hún.

Getum alveg tekið þær

Ísland mætir Þýskalandi í hreinum úrslitaleik í F-riðli um hvort liðið fylgir Hollandi í milliriðil í Vín annað kvöld.

„Ég er spennt. Ég held að þetta verði ógeðslega gaman eins og síðustu tveir leikir eru búnir að vera. Ég geri smá ráð fyrir stórum hlutum. Ég held að við getum alveg tekið þær,“ sagði Katrín Anna og bætti við að hún væri bjartsýn á sigur.

Er mbl.is ræddi við Katrínu Önnu var íslenski hópurinn ekki búinn að kafa djúpt í leik þýska liðsins enda átti eftir að funda um það.

„Ég veit ekki mikið um þær nema að þær eru nautsterkar og með mikið af góðum einstaklingum sem reynast þeim vel og verður erfitt að bregðast við,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka