Pólland og Slóvenía í milliriðla

Ana Abina fagnar marki gegn Austurríki í Innsbruck í dag.
Ana Abina fagnar marki gegn Austurríki í Innsbruck í dag. AFP/Eva Manhart

Pólland og Slóvenía tryggðu sér í dag sæti í milliriðlum á Evrópumóti kvenna í handknattleik.

Pólland hafði betur gegn Spáni í C-riðlinum, 26:23, í Basel í Sviss þar sem Aleksandra Rosiak var markahæst hjá pólska liðinu með sex mörk. 

Pólland er með 4 stig í öðru sæti riðilsins, líkt og Frakkland sem mætir Portúgal síðar í kvöld en Spánn er með 2 stig og er úr leik.

Slóvenar fylgja Norðmönnum

Tjasa Stanko átti stórleik fyrir Slóveníu þegar liðið hafði betur gegn Austurríki, 25:24, í Innsbruck en Stanko skoraði átta mörk í leiknum.

Slóvenía er með 4 stig í öðru sæti E-riðils og er komið áfram í milliriðla ásamt Noregi sem mætir Slóvakíu síðar í kvöld. Austurríki og Slóvakía sitja hins vegar eftir með sárt ennið.

Ungverjar með fullt hús stiga

Nadine Szollosi-Schatzl var svo markahæst hjá Ungverjalandi sem vann öruggan sigur gegn Norður-Makedóníu, 29:19, í Debrecen en hún skoraði sex mörk.

Ungverjar eru með fullt hús stiga eða 6 stig í efsta sætinu en Tyrkland og Svíþjóð mætast í kvöld í leik um annað sæti riðilsins og sæti í milliriðlum á meðan Norður-Makedónía er úr leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka