Xenia Smits, leikmaður þýska kvennalandsliðsins í handknattleik, segir að Þýskaland eigi fyrir höndum erfiðan leik gegn Íslandi á Evrópumótinu í Innsbruck annað kvöld.
Þýskaland og Ísland eru jöfn með tvö stig hvort fyrir lokaumferðina eftir að Ísland vann Úkraínu í gærkvöld, 27:24, en Þýskaland tapaði 29:22 fyrir Hollandi. Leikurinn annað kvöld ræður úrslitum um hvort það verður Þýskaland eða Ísland sem fylgir hollenska liðinu í milliriðil Evrópumótsins.
„Við megum svo sannarlega ekki vanmeta íslenska liðið sem lék virkilega vel gegn Hollandi í fyrsta leiknum á föstudaginn og tapaði naumlega. Ísland er með leikmenn sem eru mjög góðir maður á mann, og líka sterka varnarmenn.
Þetta verður ekki auðvelt en við munum fara yfir hvaða mistök við gerðum í leiknum gegn Hollandi og gera allt sem við getum til að leiðrétta þau,“ sagði Smits við Handball.net.