Við Íslendingar erum svolítið klikkaðir

Elín Jóna Þorsteinsdóttir fagnar eftir að hafa varið skot í …
Elín Jóna Þorsteinsdóttir fagnar eftir að hafa varið skot í sigrinum á Úkraínu í gærkvöldi. Ljósmynd/Jon Forberg

„Líðanin er rosalega góð. Mér líður rosalega vel og það er búin að vera góð stemming hjá liðinu. Ég er spennt fyrir leiknum á morgun,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir, markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik.

Ísland vann sögulegan fyrsta sigur sinn frá upphafi á Evrópumóti með því að leggja Úkraínu að velli, 27:24, á EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í gærkvöldi.

Blaðamaður mbl.is náði tali af Elínu Jónu á hóteli liðsins í borginni í hádeginu í dag og spurði þá hvernig hefði gengið að leggja sigurinn í gærkvöldi að baki sér og byrja að einbeita sér að hreinum úrslitaleik um annað sætið í F-riðli gegn Þýskalandi annað kvöld.

„Það var allavega erfitt í gær. Ég og Hafdís [Renötudóttir markvörður] fórum í lyfjapróf eftir leikinn og vorum þar til svona hálf tólf. Svo fórum við í kvöldmat og fórum seint að sofa.

Það er aðeins erfitt að ná almennilegum svefni eftir svona sögulegan dag. En við þurfum bara að gíra okkur í dag, fá smá svefn og gott fjallaloft og þá kemur þetta,“ sagði hún hreinskilinn.

Trúum því að við séum bestar og flottastar

Elín Jóna veit sem er að verkefnið gegn þýska liðinu verður erfitt.

„Ég hef ekki fylgst með þeim vegna þess að ég hef aðallega einbeitt mér að þeim liðum sem við höfum mætt. Það er mikið af upplýsingum sem við markmennirnir þurfum að muna. Ég talaði við markmannsþjálfarann hjá austurríska landsliðinu.

Hún er kollegi minn í Danmörku og þær spiluðu á móti þeim í vináttuleikjum fyrir mótið. Hún sagði mér að þær væru með rosa mikinn hraða og hafi svolítið keyrt yfir þær í byrjun leiksins. Þannig að ég býst við að þær komi af fullum krafti og miklum hraða inn í leikinn, sem við þurfum að vera tilbúnar að stöðva.“

Hún kvaðst þá vitanlega ánægð með að Ísland hafi að einhverju að keppa og eigi möguleika á að komast í milliriðil.

„Já, klárlega. Við Íslendingar erum svolítið klikkaðir. Við trúum því alltaf að við séum besta liðið og að við séum flottastar. Mér finnst að við ættum að fara með það sjálfstraust inn í þennan leik.

Flestir vita að við erum litla liðið en okkur líður vel þannig. Við viljum koma á óvart og sýna fólki að við erum miklu meira en það kannski heldur. Við erum gíraðar í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka