„Andinn er mjög góður. Við erum búin að undirbúa þetta vel og stelpurnar eru í góðu jafnvægi. Það eru allir tilbúnir í að selja sig dýrt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik.
Ísland mætir Þýskalandi í úrslitaleik um hvort liðið tekur annað sætið í F-riðlinum á EM 2024 og fer með Hollandi áfram í milliriðil 2 í Vín.
„Við þurfum auðvitað að hitta á mjög góðan leik, það er auðvitað það fyrsta. Við þurfum að hlaupa vel til baka, þær keyra mikið upp hraðann. Annars vegar á fyrsta tempói en hins vegar öðru og þriðja tempói, þær halda lengi pressu.
Við þurfum að skila okkur vel til baka. Þær skoruðu sem dæmi 17 af 30 mörkum sínum gegn Úkraínu úr hröðum upphlaupum. Það er eitt af stóru atriðunum. Við þurfum að hitta á góðan dag,“ sagðiu Ágúst Þór í samtali við mbl.is fyrir leikinn í Innsbruck í Austurríki.
Tvær breytingar voru gerðar á leikmannahópnum fyrir leikinn í kvöld, sem hefst klukkan 19.30. Katrín Tinna Jensdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir koma inn í leikmannahópinn í staðinn fyrir Elísu Elíasdóttur og Katrínu Önnu Ásmundsdóttur.
„Elísa er veik, hún varð eftir uppi á hóteli. Svo vildum við bara fríska aðeins upp á þetta og fá ferska leikmenn inn. En það er svo sem þannig lagað engin sérstök ástæða fyrir þessum breytingum,“ sagði hann um breytingarnar.
Ísland þarf sigur til þess að komast áfram. Spurður hvort hann væri bjartsýnn á góð úrslit í leiknum í kvöld sagði Ágúst Þór að lokum:
„Ég er bjartsýnn á góða frammistöðu og vonast virkilega eftir því. Ég er sannfærður um að ef við náum að hitta á góðan leik, og því lengur sem við náum að halda pressu á þeim og stríða þeim, því bjartsýnni verð ég á að við náum að landa þessu. Það er markmiðið.“