Erum búin að skrifa söguna

Perla Ruth Albertsdóttir í baráttu við Juliu Behnke í leiknum …
Perla Ruth Albertsdóttir í baráttu við Juliu Behnke í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

„Þetta er mjög skrítin tilfinning því við erum mjög tapsárar,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir, markahæsti leikmaður Íslands á EM 2024, eftir 11 marka tap fyrir Þýskalandi í lokaumferð F-riðils í Innsbruck í Austurríki í kvöld.

Perla Ruth skoraði sex mörk í kvöld og alls 20 mörk í þremur leikjum í riðlinum.

„Okkur finnst ekki gaman að tapa og það er sérstaklega mikið svekkelsi að þetta hafi verið svona stórt tap. Þetta þurfti ekki að fara þannig. En á sama tíma erum við ótrúlega stoltar.

Maður fattar það þegar líður aðeins lengra frá leiknum að við erum virkilega stoltar af öllum þessum skrefum sem við erum búnar að taka á þessu móti,“ sagði hún í samtali við mbl.is eftir leik.

„Þetta er risastórt og við erum búin að skrifa söguna. Þetta hefði ekki þurft að vera svona stórt tap í dag en þær voru greinilega brjálaðar í 60 mínútur eftir vonbrigði á mótinu hingað til.

Þær hafa sætt mikilli gagnrýni þannig að það er eðlilegt að svona reynslumiklir leikmenn, bara allir í Meistaradeildinni og svakalegt lið, gáfu heldur betur í og sýndu allt sem þær gátu núna,“ bætti Perla Ruth við.

Stærsti leikur sem nokkur okkar hefur spilað

Spurð hvort henni þætti sem skrifa mætti tapið á hversu sterkt Þýskaland væri eða hversu mikið hafi farið úrskeiðis hjá Þýskalandi sagði Perla Ruth:

„Ég held bara bæði. Ég veit ekki hvort það hafi verið að við vorum að spila úrslitaleik um milliriðlasæti. Þetta var bara stærsti leikur sem nokkur okkar hefur spilað. Þannig að ég veit ekki hvort það hafi spilað eitthvað inn í.

Það var í seinni hálfleik þegar við náðum ekki að keyra neitt. Við keyrðum í fyrri hálfleik og fengum nokkur auðveld mörk út úr því. Við erum nokkuð góðar í því en náðum ekki að gera það í seinni hálfleik. Þær voru að fá allt of auðveld mörk á móti.

Við vorum með allt of marga tapaða bolta í sóknunum okkar, gripna bolta sem enduðu með hraðaupphlaupum hjá þeim og það er erfitt að spila klassa vörn þegar sóknin gengur brösuglega. Þetta vinnur svolítið mikið saman.

Eðlilega var sjálfstraustið orðið aðeins minna og þá verður maður aðeins minni í sér, óöruggari og þær fengu auðveld mörk, sama þó við næðum að koma okkur heim og stilla upp. Við gerðum hlutina ekki auðvelda fyrir markmennina okkar. Ætli þetta hafi ekki bara allt spilast saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert