„Það eru blendnar tilfinningar. Þessi leikur fór kannski aðeins verr en við ætluðum okkur,“ sagði Steinunn Bjönsdóttir, línumaður íslenska landsliðsins í handknattleik eftir stórt tap fyrir Þýskalandi í lokaumferð F-riðils EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í kvöld.
„Við ætluðum okkur náttúrlega ekki að tapa svona stórt á móti þessari þjóð. Að sama skapi erum við að spila á móti gríðarlegu sterku liði, ofboðslega líkamlegt sterkt lið.
Það verður bara að segjast eins og er að þarna fann maður bara fyrir muninum á atvinnumennsku og áhugamennsku að miklu leyti. Þær voru líkamlega sterkari en ég átti von á,“ sagði Steinunn í samtali við mbl.is eftir leik.
Spurð hvað hún teldi að hafi farið úrskeiðis hjá íslenska liðinu sagði Steinunn:
„Mér fannst það blanda af báðu. Mér finnst sóknarleikurinn okkar hafa verið góður og mikill stígandi í honum í síðustu leikjum og þá tel ég líka með Póllandsleikina og leikina á móti Sviss.
Mig langar að taka það jákvæða úr þeim leikjum sóknarlega, það er fáránlega mikill stígandi þar. Í dag vorum við svolítið staðar. Þær voru að ná að stoppa okkur of auðveldlega og við náðum ekki að hlaupa þarna undir.
Að mörgu leyti er það líka út af því að þær eru líkamlega sterkar. Við náðum ekki að hreyfa þær nógu vel. En um leið og við náðum að hreyfa þær sáum við að við áttum mikinn séns í þær en það tókst ekki nógu oft í dag.“
Þrátt fyrir ellefu marka tap í kvöld er Steinunn, sem er 33 ára, ánægð með upplifunina af sínu fyrsta stórmóti á ferlinum.
„Þetta var virkilega góð upplifun, ótrúlega skemmtilegur tími með frábærum hóp af leikmönnum og starfsfólki. Þetta var heilt yfir ógeðslega gaman.
Mér líður samt ekki eins og þetta hafi verið mitt fyrsta, ég verð að viðurkenna það! En þetta var mjög góð upplifun og gaman. Ég er svolítið með hlýtt í hjarta og heilt yfir jákvæð eftir þetta mót,“ sagði reynsluboltinn að lokum.