Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, kom sjónvarpsmönnum norska ríkissjónvarpsins á óvart er Noregur vann sannfærandi 38:15-sigur á Slóvakíu á Evrópumótinu í gær.
Selfyssingurinn tók leikhlé í stöðunni 24:10 eftir tíu mínútur í seinni hálfleik. Slóvakía hafði þá skorað tvö mörk í röð, eftir sex norsk mörk í röð þar á undan.
Þrátt fyrir örugga forystu lét Þórir sitt lið heyra það í leikhléinu og lét þær vita að það væri ekki í boði að slaka á.
„Það kemur mér á óvart hve reiður Þórir er,“ sagði Patrick Rowlands í útsendingu norska sjónvarpsins. Kenneth Gabrielsen skildi þó hvers vegna Þórir lét vel í sér heyra.
„Leikmenn eru byrjaðir að slaka aðeins á. Það er enginn þjálfari hrifinn af því,“ sagði Gabrielsen.
„Það er skiljanlegt að slaka aðeins á en þær brugðust vel við þessu leikhléi. Ég var ekkert reiður,“ sagði Þórir brosandi við Nettavisen eftir leik.