Þjóðverjar of sterkir og Ísland úr leik á EM

Ísland mátti sætta sig við 30:19-tap fyrir Þýskalandi í þriðju umferð F-riðils, lokaumferðinni, á EM 2024 í handknattleik kvenna í Innsbruck í Austurríki í kvöld. Þýskaland fer þar með áfram í milliriðil en Ísland hefur lokið þátttöku á mótinu.

Þýskaland vann sér inn fjögur stig og hafnar í öðru sæti riðilsins. Ísland hafnar í þriðja sæti með tvö stig.

Ísland byrjaði leikinn af miklum krafti og komst fljótt í 2:0. Þýskaland var fljótt að bregðast við og sneri taflinu við í 3:2.

Jafnræði var með liðunum í kjölfarið en eftir að íslenska liðið komst í 5:4 herti þýska liðið tökin í vörninni svo um munaði, hlutirnir fóru að smella í sóknarleiknum hjá Þýskalandi á meðan ekkert gekk í sókninni hjá Íslandi.

Þýskaland skoraði sex mörk í röð og komst þannig fimm mörkum yfir í stöðunni 10:5. Þegar þarna var komið við sögu hafði íslenska liðið ekki skorað eitt einasta mark á um tólf mínútna kafla og reyndist hann dýrkeyptur.

Ísland náði að vísu loks smá áhlaupi og minnkaði muninn niður í þrjú mörk, 11:8. Þjóðverjar komust hins vegar fimm mörkum yfir nokkrum sinnum til viðbótar og leiddu með fjórum mörkum, 14:10, í hálfleik.

Ekki batnaði það í síðari hálfleik

Síðari hálfleikurinn fór mjög rólega af stað þar sem báðum liðum gekk erfiðlega að skora. Þýskaland fann hins vegar fjölina þegar leið á hálfleikinn á meðan Ísland skoraði aðeins eitt mark á fyrstu tólf mínútum hálfleiksins.

Munurinn var orðinn sjö mörk, 18:11, þegar tæplega 41 mínúta var liðin af leiknum. Ísland lagaði stöðuna aðeins og minnkaði muninn í 18:13.

Sterkir Þjóðverjar hleyptu hins vegar Íslendingum ekki nær en fimm mörkum og unnu að lokum afar öruggan ellefur marka sigur.

Markahæst hjá Íslandi var vinstri hornamaðurinn Perla Ruth Albertsdóttir, þriðja leikinn í röð, með sex mörk. Hún skoraði alls 20 mörk í leikjunum þremur.

Markahæst í leiknum var Nina Engel hjá Þýskalandi með sjö mörk. Katharina Filter átti góðan leik í marki Þýskalands og varði tólf skot.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 19:30 Þýskaland opna loka
60. mín. Sarah Wachter (Þýskaland) varði skot Frá Elínu Rósu sem var í dauðafæri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert