„Við komum hingað á fimmtudag í síðustu viku og tökum alla leikina í riðlinum. Við vorum hérna á móti Hollandi og Úkraínu og núna á móti Þýskalandi,“ sagði Gauti Sigurgeirsson, meðlimur stuðningssveitarinnar Sérsveitin, sem er í Austurríki að styðja við íslenska kvennalandsliðið í handknattleik.
Fram undan er hreinn úrslitaleikur Íslands gegn Þýskalandi í F-riðli á EM 2024 í Innsbruck þar sem kemur í ljós hvort liðið fylgir Hollandi upp úr riðlinum og í milliriðil 2 í Vín.
„Það er heldur betur úrslitaleikur og ótrúlega skemmtileg staða sem er komin upp, að sigur þýðir það að við förum áfram. Okkur líst alveg frábærlega á þetta, þetta eru leikir sem við lifum fyrir að taka þátt í, þegar eitthvað er undir.
Við erum reyndar þekkt fyrir það að við leggjum aldrei árar í bát alveg sama hvernig staðan er. Þó útlitið sé svart hættum við aldrei. Að spila úrslitaleiki er alveg geggjað og ótrúlega gaman að taka þátt í því,“ sagði Gauti í samtali við mbl.is á hótelinu sem meðlimir Sérsveitarinnar dveljast á.
Beðinn um að spá fyrir um úrslit í leiknum, sem hefst klukkan 19.30 í kvöld, sagði hann:
„Við vonumst eftir sigri. Ætli við vinnum ekki með einu? 29:28.“
Þorsteinn Þórólfsson er einnig meðlimur Sérsveitarinnar.
„Við erum búin að vera hérna allan tímann. Við komum hérna 28. nóvember og förum heim í fyrramálið. Við klárum riðilinn,“ sagði Þorsteinn við mbl.is.
Hann býst líkt og Gauti við hörkuleik.
„Mér líst ágætlega á leikinn en er smá smeykur. Þetta eru Þjóðverjar en íslensku stelpurnar eru búnar að sýna svakalega góða leiki og ég hef rosalega trú á þessum stelpum.“
Þorsteinn spáði loks í spilin:
„Þetta verður rosalega jafnt og ég er að fara að spá jafntefli, 26:26.“
Sonja Steinarsdóttir, „költ“ leiðtogi Sérsveitarinnar að sögn Gauta, er bjartsýnust allra viðmælenda mbl.is.
„Þetta er rosalegt lið hjá Þýskalandi en hins vegar er okkar lið á fljúgandi siglingu og ég hef trú á íslenska hjartanu. Við erum öll búin að mynda frábæra stemningu þannig að ég hef bara fulla trú á því að þær taki þennan leik.
Ég giska á með fjórum mörkum. Ég held að vörnin okkar detti í gang þannig að þær þýsku skori ekki mjög mikið. Ég segi 28:24,“ sagði Sonja.