Jenny Behrend, landsliðskona Þýskalands í handknattleik, segir að íslensku landsliðskonurnar mæti fullar sjálfstrausts í leikinn gegn þeim á Evrópumótinu í Innsbruck í kvöld.
Úrslitaleikur liðanna um sæti í milliriðli mótsins hefst klukkan 19.30 en þýska liðinu nægir jafntefli til að tryggja sér annað sæti F-riðilsins.
„Íslenska liðið mun koma með mikið sjálfstraust inn í leikinn eftir að hafa unnið sinn fyrsta sigur á mótinu. Þær íslensku hafa átt mjög gott mót, það er engin pressa á þeim og þær spila afslappað," sagði Behrend.
„En við erum með gott lið og þegar við nýtum okkar styrkleika erum við með góða vörn og góð hraðaupphlaup. Ég hef því enga ástæðu til að efast um að við munum sigra. Við ætlum að einbeita okkur að okkar styrkleikum og vonna leikinn. Það kemur ekkert annað til greina," asgði Behrend við netmiðilinn handball.net.