„Það gekk bara vel að ná sér niður,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, á liðshótelinu í Innsbruck í Austurríki í gær.
Þar ræddi hann sögulegan sigur gegn Úkraínu, 27:24, á EM 2024 á sunnudagskvöld.
„Við nutum þess aðeins í gærkvöldi [á sunnudagskvöld] og gáfum okkur tíma í það. Svo þegar við vöknuðum í morgun [í gær] fór fókusinn strax yfir á næsta verkefni sem er stórt. Við nýtum daginn í að undirbúa okkur fyrir þann leik,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is.
Með sigrinum sá Ísland til þess að liðið fær hreinan úrslitaleik gegn Þýskalandi í kvöld um hvort liðið fylgir Hollandi upp úr F-riðli og fari í milliriðil 2 í Vínarborg.
„Það skiptir okkur ofboðslega miklu máli að fá úrslitaleik, að fá leik þar sem er svona mikið undir. Það þroskar okkur bæði sem íþróttamenn og sem lið og það mun sama hvað alltaf skilja eitthvað eftir sig.
Við munum taka það með okkur inn í framtíðina. Fyrir okkur er það mjög mikilvægt að fá svona leik á vegferðinni sem við erum á,“ sagði hann.
Spurður út í veikleika þýska liðsins sagði Arnar:
„Við nýtum daginn í dag [í gær] í að finna þá. Svo ég svari þessu á eins diplómatískan hátt og hægt er þá liggjum við yfir þýska liðinu núna og erum að reyna að greina þeirra leik og finna út hvernig við viljum spila á móti þeim. Vonandi gengur það bara vel.“
Nánar er rætt við Arnar á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.