„Stoltur af liðinu“

Arnar Pétursson segir leikmönnum til á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Pétursson segir leikmönnum til á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

„Tilfinningin er ekkert sérstök þegar maður tapar leik,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, eftir að liðið féll úr leik á EM 2024 með stóru tapi fyrir Þýskalandi í Innsbruck í Austurríki í kvöld.

„En höfum það í huga að við vorum að spila við eitt af betri liðum heims í dag, sem er ef við erum heiðarleg og hreinskilin bara töluvert sterkara en við. Við þurfum aðeins lengri tíma til þess að gera eitthvað til þess að nálgast þetta lið,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leik.

Var eitthvað visst sem þér fannst fara úrskeiðis í leik íslenska liðsins?

„Já, við vorum auðvitað á löngum köflum í vandræðum með sóknarleikinn. Þær voru svolítið með okkur þar. Við vorum í erfiðleikum með bardagann og konu á konu. Við fundum fáar lausnir.

Það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að skoða en heilt yfir erum við svolítið að horfa í það að þetta er feikisterkt lið sem við vorum að spila við,“ sagði hann.

Eini riðillinn með tveimur ólympíuþjóðum

Þrátt fyrir tapið var upplifun Arnar af fyrsta Evrópumóti sínu sem þjálfari liðsins ánægjuleg.

„Ef við gerum upp mótið í heild sinni þá er reynslan mjög góð. Ég er stoltur af stelpunum og teyminu í kringum liðið og því sem við erum búin að gera. Við erum að koma inn í mjög erfiðan riðil með tveimur þjóðum sem voru á Ólympíuleikunum.

Þetta er eini riðilinn sem var með tveimur ólympíuþjóðum í. Það segir mikið um styrkleikann í riðlinum. Við eigum hörkuleik á móti Hollandi, sem við gerðum vel í, vinnum svo fyrsta sigurinn okkar þannig að í heildina er ég stoltur af liðinu og því sem við gerðum,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert