Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, sér ekkert því til fyrirstöðu að íslenska kvennalandsliðið stefni enn hærra á næstu árum.
Noregur og Ísland spila bæði riðla sína á EM 2024 í Innsbruck í Austurríki. Noregur er komið í milliriðil 2 eftir að hafa unnið sér inn fullt hús stiga í E-riðli. Ísland er svo með tvö stig í F-riðli og kemst í sama milliriðil með sigri gegn Þýskalandi í kvöld.
„Ég sá stóran hluta af leiknum við Hollendinga, ekki síðasta korterið, þá vorum við með leikskipulagsfund og þá þurfti ég að slökkva á því. Svo vorum við líka með fund í gær [á sunnudag] þegar þær spiluðu við Úkraínu. Ég hef náð að sjá 45 mínútur, það var nóg.
Mér fannst það mjög vel spilað. Ég sá leikina við Pólland í haust. Ég sá ekki leikina við Sviss en hef svona fylgst með og séð liðið síðustu árin, mikið af þessum leikjum þegar þær hafa verið að spila og það eru miklar framfarir.
Bæði einstaklingar, stelpur sem eru að taka miklum framförum, og liðið. Þetta er mjög fagmannlega unnið. Þetta er búið að gerast yfir lengri tíma og Arnar [Pétursson landsliðsþjálfari] og Gústi [Ágúst Þór Jóhannsson aðstoðarþjálfari] eru náttúrlega miklir fagmenn, flottir strákar.
Mér finnst þeir vera búnir að vinna þetta rosa vel. Svo fylgist ég með félagsliða handboltanum heima, svona svolítið úr fjarlægð og sé leiki inni á milli í deildinni. Þetta hefur allt verið að tosast í rétta átt, það er unnið mjög vel að þessu og það er það sem verður að gera,“ sagði Þórir í samtali við mbl.is á liðshóteli Noregs í Innsbruck í gær.
Hann fór þá nánar út í hvað þyrfti að gerast til þess að íslenska liðið geti komið sér í hóp bestu liða heims.
„Það verður að leggja í þetta fjármagn og metnað fyrir stelpurnar. Það eru góðir þjálfarar að þjálfa þessi lið og það eru góðir þjálfarar niður í yngri flokka. Það er mjög jákvætt. Af hverju ætti Ísland ekki að geta verið með topp tólf þjóðum í kvennahandbolta? Af hverju ekki í topp tíu?
Það á alveg að vera hægt. Nú finnst mér þetta svona vera að koma á þann stað að næsta skref sýnist mér vera að það verður að lyfta umgjörðinni í kringum landsliðið á enn hærra plan. Ég vona að Vésteinn vinur minn Hafsteinsson sjái um það. Sama með Handknattleikssambandið.
Svo þurfa þessar stelpur að komast út í einhver af þessum toppliðum. Ef þær sýna sig í þessum þremur leikjum og kannski fleirum, þá aukast möguleikarnir á því að þær fái möguleika í stærri og betri klúbbum í Evrópu. Þá er hurðin opin fyrir meiri framfarir hjá landsliðinu.
Ég er þeirra skoðunar að ef það á að gera eitthvað í alþjóðabolta, karla eða kvenna, þurfa leikmennirnir í landsliðunum að vera meira og minna í Meistaradeild eða að lágmarki í Evrópudeild og að spila á móti bestu liðunum í gegnum tímabilið. Það er mjög mikilvægt ef landsliðin eiga að vera þarna í efri hluta.“
Spurður hvort hann teldi að Ísland gæti tekið þessi skref áfram upp á við til þess að komast nær bestu liðum heims sagði Þórir að lokum:
„Af hverju ekki? Við erum búin að vera með karlalandsliðið sem hefur í langan tíma verið einhvers staðar frá tvö til tólf í heiminum. Ég las einhvers staðar að Arnar hafi sagt að Ísland eigi bara að vera fastagestur á stórmótum.
Nú eru komin 24 lið á Evrópumótið og fleiri lið á HM þannig að það er ekkert mál. Ef það á að lyfta metnaðinum á Ísland að setja stefnuna á að vera í topp tíu. En það þarf ýmislegt til og mér finnst þetta svona vera að tosast í rétta átt.“