Vona að þessi leikur sverti ekki minninguna

Hafdís Renötudóttir í leiknum í kvöld.
Hafdís Renötudóttir í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

Markvörðurinn Hafdís Renötudóttir var skiljanlega svekkt er hún ræddi við mbl.is eftir tap fyrir Þýskalandi, 30:19, á EM í handbolta í Innsbruck í Austurríki í kvöld. Tapið þýðir að Ísland er úr leik á mótinu en með sigri hefði Ísland komist í milliriðil.

„Ef við hefðum spilað seinni hálfleikinn eins og við spiluðum fyrri hálfleikinn þá hefði þetta verið jafnara og allt hefði getað gerst. Munurinn er kannski sá að við fengum markvörslu í fyrri hálfleik en ekki seinni. Markvörðurinn þeirra hrökk svo í gang í seinni,“ sagði Hafdís en staðan í hálfleik var 14:10.

Ísland vann sinn fyrsta leik á EM er liðið sigraði Úkraínu í leik tvö. Það dugði hins vegar ekki til að fara áfram.

„Maður fær mikla reynslu af að spila á EM og ég vona að þessi tapleikur sverti ekki minninguna á mótinu. Við vorum að ná sögulegum árangri. Við verðum að reyna að eyða þessu úr höfðinu og læra af þessu,“ sagði Hafdís og hélt áfram:

„Við sýndum ekki okkar rétta andlit í kvöld. Við eigum að gera betur þótt þær séu góðar og voru líka í úrslitaleik eins og við. Þær þurftu að negla okkur og það tókst,“ sagði Hafdís.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert