Holland hafði betur gegn Slóveníu, 26:22, í milliriðli 2 á Evrópumóti kvenna í handbolta í dag. Á sama tíma sigraði Frakkland Rúmeníu 30:25.
Holland var yfir allan fyrri hálfleikinn og var mest fimm mörkum yfir og staðan í hálfleik var 14:10 fyrir Hollandi. Slóvenía byrjaði seinni hálfleik vel og á 36. mínútu komst liðið yfir í fyrsta sinn í leiknum í 16:15. Hollenska liðið komst aftur yfir á 41. mínútu og sigraði svo með fjögrra marka mun, 26:22.
Markahæst í hollenska liðinu var Antje Angela Malestein með sex mörk, Zoe Sprengers skoraði fimm og Yara Ten Holte varði 13 bolta.
Tjassa Stanko var markahæst fyrir Slóveníu með sex mörk og Natasa Ljepoja skoraði fimm. Maja Vojnovic varði 13 skot.
Holland er á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Liðið hefur sigrað alla fjóra leiki liðsins á móttinu, þar á meðal Ísland 27:25.
Frakkland var þremur mörkum yfir gegn Rúmeníu í hálfleik í leik liðanna í milliriðli 1 í dag. Rúmenía minnkaði muninn og jafnaði í 16:16 á 42. mínútu og aftur í 20:20 en komst aldrei yfir. Frakkland sigraði með fimm marka mun, 25:30.
Chloe Valentini var markahæst fyrir franska liðið með sex mörk og Lucie Granier bætti við fimm. Laura Glauser og Hatadou Sako vörðu átta skot hvor en Sako var með 53% vörslu.
Bianca Maria Bazaliu var markahæst fyrir Rúmeníu með sex mörk, Lorena Gabriela Ostase skoraði fjögur og Bianca Tomina Curment varði 11 skot.