Þórir veit ekkert hvað tekur við

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í leik Noregs gegn Slóvakíu á …
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í leik Noregs gegn Slóvakíu á mánudagskvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

„Nei, veistu ég er búinn að ýta þessu öllu á undan mér. Ég ætla að taka mér frí,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, um hvort hann vissi hvað tæki við þegar hann lætur af störfum með liðið um áramót.

EM 2024 í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss verður síðasta stórmót hans með norska liðið.

„Ég er nú búinn að binda mig í einhverja fyrirlestra í janúar og febrúar en ég ætla meira og minna að taka mér frí í janúar og febrúar og skoða þetta svolítið. Ég ákvað það í haust þegar ég tók þessa ákvörðun að hætta um áramót að gefa mér góðan tíma.

Það eina sem ég veit er að ég er ekki að fara að hoppa í eitthvað þjálfarastarf hjá einhverjum klúbbi á miðju tímabili eða eitthvað svoleiðis. Ef það verða einhver þjálfarastörf þá skoða ég það vel og vandlega.

Það þarf að vera réttur staður og réttur tími og svona. Svo getur vel verið að ég fari í eitthvað allt annað,“ sagði Þórir í samtali við mbl.is á liðshóteli Noregs í Innsbruck í Austurríki á mánudag.

Hvar sem það verður

Spurður hvort hann vissi hvers konar starf það gæti verið ákveði Þórir að fara í eitthvað annað en þjálfarastarf sagði Selfyssingurinn:

„Nei, en ef ég þekki mig rétt verður það ábyggilega eitthvað þar sem maður er að vinna með stór markmið, fá fólk til þess að vinna saman að einhverjum stórum markmiðum. Ég reikna með því, hvar sem það verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert