Frakkland tók stórt skref í áttina að undanúrslitum Evrópumóts kvenna í handbolta með öruggum sigri á Svartfjallalandi, 31:23, í 2. umferð milliriðils eitt í Debrecen í Ungverjalandi í kvöld.
Frakkland er nú með sex stig og nægir eitt stig úr síðustu tveimur leikjum sínum í riðlinum til að tryggja sér eitt tveggja efstu sæta riðilsins og sæti í undanúrslitum. Svartfjallaland á enn veika von á sæti í undanúrslitum.
Staðan í hálfleik var 15:11 fyrir Frakklandi og heimsmeistararnir héldu áfram að bæta í forskotið í seinni hálfleik.
Grace Zaadi skoraði sjö mörk fyrir Frakkland og Estelle Nze Minko gerði fjögur. Ivona Pavicevic skoraði sex fyrir Svartfjallaland.