Rúmenía náði í sín fyrstu stig í milliriðli eitt á Evrópumóti kvenna í handbolta í dag er liðið sigraði Svíþjóð, 25:23, í Debrecen í Ungverjalandi.
Bæði lið eru með tvö stig, tveimur stigum á eftir Frakklandi og Ungverjalandi sem eiga leik til góða.
Aðeins tvö efstu liðin fara áfram í undanúrslit og er staða sænska liðsins orðin erfið eftir tapið en liðið á eftir að leika tvo leiki.
Rúmenía byrjaði mun betur og komst í 10:4 snemma leiks. Var staðan í hálfleik 12:8. Rúmenska liðið hélt frumkvæðinu framan af í seinni hálfleik en það sænska minnkaði muninn í eitt mark þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 18:17.
Staðan var svo jöfn, 22:22, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Rúmenska liðið var hins vegar sterkara á lokakaflanum og skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkunum.
Bianca Bazaliu skoraði átta mörk fyrir Rúmeníu og Lorena Ostase gerði sex. Emma Lindqvist skoraði fimm fyrir Svíþjóð og Jamina Roberts fjögur.