Von Svía hangir á bláþræði

Alisia Boiciuc sækir að marki sænska liðsins í dag.
Alisia Boiciuc sækir að marki sænska liðsins í dag. AFP/Ferenc Isza

Rúmenía náði í sín fyrstu stig í milliriðli eitt á Evrópumóti kvenna í handbolta í dag er liðið sigraði Svíþjóð, 25:23, í Debrecen í Ungverjalandi.

Bæði lið eru með tvö stig, tveimur stigum á eftir Frakklandi og Ungverjalandi sem eiga leik til góða.

Aðeins tvö efstu liðin fara áfram í undanúrslit og er staða sænska liðsins orðin erfið eftir tapið en liðið á eftir að leika tvo leiki. 

Rúmenía byrjaði mun betur og komst í 10:4 snemma leiks. Var staðan í hálfleik 12:8. Rúmenska liðið hélt frumkvæðinu framan af í seinni hálfleik en það sænska minnkaði muninn í eitt mark þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 18:17.

Staðan var svo jöfn, 22:22, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Rúmenska liðið var hins vegar sterkara á lokakaflanum og skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkunum.

Bianca Bazaliu skoraði átta mörk fyrir Rúmeníu og Lorena Ostase gerði sex. Emma Lindqvist skoraði fimm fyrir Svíþjóð og Jamina Roberts fjögur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert