Þórir: Ég er enginn siðapostuli

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í leik Noregs gegn Slóvakíu í …
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í leik Noregs gegn Slóvakíu í síðustu viku. Ljósmynd/Jon Forberg

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, hefur tjáð sig um ljósmynd sem birtist af tveimur leikmönnum franska landsliðsins að reykja sígarettur.

Tamara Horacek og Laura Flippes voru myndaðar reykjandi í æfingagalla franska landsliðsins í Debrecen í Ungverjalandi, þar sem Frakkland spilar í milliriðli 1 á EM 2024.

Norska blaðinu Nettavisen lék forvitni á að vita hvað Þóri og leikmönnum Noregs þætti um þetta athæfi Frakkanna.

„Ég er enginn siðapostuli en ég myndi biðja leikmenn mína um að gera þetta ekki á almannafæri í klæðnaði landsliðsins.

Aðallega er það vegna þess að þeir eru fyrirmyndir fyrir ung börn. En ég ákveð ekki hvort fólk reyki eður ei. Persónulega finnst mér að maður ætti ekki að dæma aðra fyrir það.

Ef þetta væri tilfellið hjá okkar liði hefði ég að minnsta kosti beðið leikmenn um að gera þetta fyrir luktum dyrum,“ sagði Þórir.

Höfum alltaf vitað af þessu

„Ég held að það séu margir leikmenn sem reykja og að það sé miklu algengara í franskri menningu heldur en innan norskrar menningar.

Ég er ekki hissa á þessari ljósmynd því við höfum alltaf vitað af þessu,“ sagði norska landsliðskonan Maren Aardahl í samtali við Nettavisen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert