Handknattleiksstjarnan Nora Mørk, leikmaður norska landsliðsins, er afar hrifin af Þóri Hergeirssyni en þau hafa unnið ófá gullverðlaun saman á stórmótum í gegnum tíðina.
Síðast unnu þau gull á Ólympíuleikunum í París saman en það var síðasta mótið þar sem þau unnu saman sem þjálfari og leikmaður.
Mørk er ekki með á EM, sem nú stendur yfir, þar sem hún er ólétt. Þess í stað er hún sérfræðingur í norska sjónvarpinu og Mørk var spurð út í samstarf sitt og Þóris í gegnum tíðina en hann hættir með norska liðið eftir mótið.
„Hann var svolítið ógnvekjandi þegar ég kom fyrst inn í liðið og var bara 19 ára. Hann er hins vegar mjög skilningsríkur og hjálpaði mér í gegnum erfiða tíma,“ sagði Mørk í norska ríkissjónvarpinu.
„Hann verndar leikmenn og hann hefur verndað mig. Ég ber gríðarlega mikla virðingu fyrir honum og allir verða mjög sorgmæddir í lok vikunnar þegar hann hættir,“ bætti hún við.