Stórstjarnan hrósaði Þóri í hástert

Þórir Hergeirsson leiðbeinir Noru Mörk.
Þórir Hergeirsson leiðbeinir Noru Mörk. AFP

Handknattleiksstjarnan Nora Mørk, leikmaður norska landsliðsins, er afar hrifin af Þóri Hergeirssyni en þau hafa unnið ófá gullverðlaun saman á stórmótum í gegnum tíðina.

Síðast unnu þau gull á Ólympíuleikunum í París saman en það var síðasta mótið þar sem þau unnu saman sem þjálfari og leikmaður.

Mørk er ekki með á EM, sem nú stendur yfir, þar sem hún er ólétt. Þess í stað er hún sérfræðingur í norska sjónvarpinu og Mørk var spurð út í samstarf sitt og Þóris í gegnum tíðina en hann hættir með norska liðið eftir mótið.

„Hann var svolítið ógnvekjandi þegar ég kom fyrst inn í liðið og var bara 19 ára. Hann er hins vegar mjög skilningsríkur og hjálpaði mér í gegnum erfiða tíma,“ sagði Mørk í norska ríkissjónvarpinu.

„Hann verndar leikmenn og hann hefur verndað mig. Ég ber gríðarlega mikla virðingu fyrir honum og allir verða mjög sorgmæddir í lok vikunnar þegar hann hættir,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert