Nora Mørk, skærasta stjarna norska handboltans undanfarin áratug, ræddi um Þóri Hergeirsson, þjálfara norska liðsins, á TV2 í heimalandinu eftir sigur liðsins á Þýskalandi á EM á mánudagskvöld.
Mørk og Þórir hafa unnið náið saman í langan tíma en hún er ekki með á EM í ár þar sem hún er ólétt af sínu fyrsta barni. Þess í stað hefur hún unnið sem sérfræðingur í norska sjónvarpinu.
Á meðal þess sem hún sagði eftir leikinn var að Þórir hafi róast með árunum og sé orðinn skilningsríkari en áður fyrr.
„Sagði hún það? Ég var hræðilegur áður fyrr,“ sagði hann brosandi við Nettavisen og hélt áfram: „Það er fullt af fólki sem heldur að ég sé mjög ógnandi en svo er ekki.
Ég lít kannski þannig út þegar ég hugsa og ég er síhugsandi. Ég hef samt þróast sem manneskja og þjálfari og það er gaman að heyra að henni finnst ég almennilegri,“ sagði Þórir.