Danmörk mætir Noregi í úrslitum

Anne Mette Hansen skoraði sjö mörk fyrir Danmörku í kvöld.
Anne Mette Hansen skoraði sjö mörk fyrir Danmörku í kvöld. AFP/Eva Manhart

Danmörk tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik EM 2024 í handknattleik kvenna með því að leggja Frakkland að velli, 24:22, í undanúrslitum í Vínarborg í Austurríki.

Danmörk mætir Noregi, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, í úrslitaleiknum í Vín á sunnudag.

Danir voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik, náðu mest þriggja marka forystu og leiddu með tveimur mörkum, 13:11, í hálfleik.

Í síðari hálfleik leið ekki á löngu þar til Frakkar höfðu jafnað metin í 14:14. Í kjölfarið hrundi hins vegar leikur Frakklands, Danmörk gekk á lagið og skoraði sex mörk í röð.

Staðan orðin 20:14 og róðurinn orðinn þungur fyrir Frakka. Þeir reyndu hvað þeir gátu til að komast nær Dönum, náðu að minnka muninn niður í tvö mörk en komust ekki nær.

Anne Mette Hansen var markahæst í leiknum með sjö mörk fyrir Danmörku. Anna Opstrup Kristensen átti stórleik í markinu en hún varði 16 skot og var með 43 prósent markvörslu.

Pauletta Foppa var markahæst hjá Frakklandi með fjögur mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert