Íslenskir dómarar í úrslitaleik EM

Skjáskot úr sjónvarpsútsendingu

Danmörk og Noregur mætast í úrslitaleik EM kvenna í handknattleik í Vín í Austurríki í dag.

EM var haldið í fyrsta skiptið árið 1994 og í næstu keppni árið 1996 önnuðust Íslendingar dómgæsluna í úrslitaleiknum. Þá voru einmitt sömu þjóðirnar í úrslitum Danir og Norðmenn en Danir voru raunar á heimavelli. 

Danmörk vann úrslitaleikinn í desember árið 1996 og urðu lokatölurnar 25:23. Dómaraparið Rögnvald Erlingsson og Stefán Arnaldsson þótti komast afar vel frá leiknum enda dómarapar í heimsklassa eins og sagan sýnir. 

Stefán Arnaldsson á HM í Portúgal 2003.
Stefán Arnaldsson á HM í Portúgal 2003. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Þeir virðast hafa verið meðvitaðir um að dómararnir ættu ekki að vera í aðalhlutverki í úrslitaleiknum því aldrei fékk leikmaður tveggja mínútna brottvísun í úrslitaleiknum. 

Danska liðið árið 1996 er yfirleitt talið eitt sterkasta lið sögunnar en liðinu tókst að vinna stórmótin þrjú í röð HM, EM og Ólympíuleikana. Snillingurinn Anja Andersen er án efa þekktasti leikmaður liðsins en einnig má nefna Camillu Andersen. 

Verður þetta í fimmta skipti sem Danmörk og Noregur mætast í úrslitaleik EM kvenna sem undirstrikar hversu mikil hefð er fyrir handboltanum á þessum bæjum. Þjóðirnar hafa báðar unnið tvívegis þegar þær hafa mæst í úrslitum EM. 

Þess má geta fyrst Rögnvald og Stefán eru hér til umfjöllunar að litlu síðar á tíunda áratugnum dæmdu þeir síðari úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu á milli Zagreb og Barcelona í Zagreb vorið 1997 en það var löngu áður en fyrirkomulaginu var breytt í úrslitahelgi í Köln eins og þekkist í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert