Þórir Evrópumeistari í sjötta sinn

Þórir Hergeirsson sallarólegur á hliðarlínunni í kvöld.
Þórir Hergeirsson sallarólegur á hliðarlínunni í kvöld. AFP/Attila Kisbenedek

Noregur, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, tryggði sér í kvöld Evrópumeistaratitilinn í handknattleik kvenna með öruggum sigri á Danmörku, 31:23, í úrslitaleik EM 2024 í Vín í Austurríki.

Þórir kveður því með sínum sjötta Evrópumeistaratitli við stjórnvölinn hjá Noregi, en hann lætur nú af störfum eftir magnað 15 ára starf.

Danir byrjuðu leikinn af krafti og komust nokkrum sinnum tveimur mörkum yfir. Eftir að Danmörk komst í 3:5 tókst Noregi hins vegar að jafna metin í 5:5.

Í kjölfarið var allt í járnum þar sem liðin skiptust á að ná eins marks forystu. Fór það svo að Noregur leiddi með einu marki, 13:12, að loknum fyrri hálfleik.

Noregur skellti í lás

Norska liðið byrjaði síðari hálfleikinn af feikna krafti, skoraði fyrstu þrjú mörk hans og náði þannig fjögurra marka forystu, 16:12.

Danir hristu loks af sér slenið og minnkuðu muninn í 16:13 eftir að hafa ekki skorað mark í tæpar sjö mínútur en Noregur herti þá tökin enn frekar og komst fimm mörkum yfir, 19:14.

Jesper Jensen, þjálfari Danmerkur, tók þá leikhlé. Það hafði ekki tilætluð áhrif þar sem þrjár sóknir í röð fóru forgörðum hjá Dönum á meðan Norðmenn skoruðu tvívegis og komust þannig sjö mörkum yfir, 21:14.

Noregur hélt þeirri forystu lengi vel og bætti raunar við þegar liðið komst átta mörkum yfir í tvígang og svo níu mörkum yfir í stöðunni 29:20.

Eins og svo oft áður á mótinu skellti Noregur einfaldlega í lás í vörninni í síðari hálfleik og hélt sínu striki í sókninni. Þá ræður ekki eitt einasta lið við það norska og niðurstaðan því öruggur átta marka sigur.

Henny Reistad var markahæst í leiknum með átta mörk fyrir Noreg. Emilie Hovden bætti við sex mörkum.

Silje Solberg-Östhassel var öflug í markinu hjá Noregi og varði 12 skot. Var hún með 36 prósent markvörslu.

Anne Mette Hansen og Mie Höjlund voru markahæstar hjá Danmörki með fimm mörk hvor. Anna Kristensen varði níu skot í markinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert