Nú þegar Michael Owen er genginn til liðs við Newscastle United velta sparkspekingar því fyrir sér hvort hann hafi í raun og veru viljað fara þangað, eða hvort hann hafi ekki treyst áætlun Liverpool-manna. Ákvæði í samningnum við Newcastle benda til þess að Owen hafi ekki viljað láta njörva sig niður og haldi þeim möguleika opnum að hverfa á braut á næsta ári.
Liverpool bauð Real Madrid 12 milljónir punda fyrir Owen. Madridingar höfnuðu boðinu kurteislega, enda var það 4 milljónum lægra en tilboð Newcastle. Owen hafði lýst því yfir að hann hefði ekki áhuga á að ganga til liðs við Newcastle, hugur hans stefndi heim á Anfield. Eftir að hafa fundað með forráðamönnum beggja félaga ákvað Owen hins vegar að taka tilboði Newcastle, en í samningi hans eru þó ákvæði sem m.a. leyfa honum að fara frá félaginu í lok leiktíðarinnar fyrir lægri upphæð en Newcastle er að borga fyrir hann. Þetta þykir mönnum benda til þess að Liverpool-menn hafi lagt það til við Owen að hann hafnaði samningstilboði Newcastle. Í ljósi þess að félagskiptaglugganum verður lokað á miðnætti myndi þetta hafa þau áhrif að Madridingar myndu setjast aftur að samningaborðum og jafnvel samþykkja 12 milljóna tilboðið. Þetta er í rauninni þekkt fyrirbæri og tvö svona dæmi koma við sögu hjá Liverpool; Milan Baros vildi ekki semja við Lyon þótt tilboð þeirra væri tveimur milljónum hærra en tilboð Aston Villa og Fernando Morientes valdi Liverpool fram yfir ...merkilegt nokk ...Newcastle. Til þess að þetta hefði getað gengið eftir hefði Owen þurft að lýsa því yfir opinberlega að hann vildi ekki ganga til liðs við Newcastle og sagan segir að hann hafi velt því fyrir sér vel og lengi. Hættan er hins vegar sú að jafnvel þótt hann hefði hafnað tilboði Newcastle er það engin trygging fyrir samningum Liverpool og Real Madrid. Madridingar ráðlögðu honum að hætta að hugsa um Liverpool, möguleikarnir væru þeir að ganga til liðs við Newcastle eða sitja á tréverkinu á Spáni fram í janúar í það minnsta. Sagan segir að Owen hafi fengið bakþanka í gærmorgun, eftir að hafa tekið ákvörðun um að ganga til liðs Newcastle án þess þó að tilkynna hana opinberlega. Hann hringdi í æðstu menn hjá Liverpool en enginn gat neitt að gert, ekki nema Owen hafnaði Newcastle. Það gerði hann hins vegar ekki, enda engin trygging fyrir því að plottið gengi upp. Sigurvegararnir í þessu öllu verða að teljast forráðamenn Real Madrid. Þeir náðu að ávaxta pund sitt ansi myndarlega og fengu dágóða summu fyrir leikmann sem þeir höfðu ekki not fyrir. Liverpool-menn hafa opinberað það að þrátt fyrir Evrópumeistaratitilinn hafa þeir ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að keppa við titlalaust lið í úrvalsdeildinni um sterkan framherja. Michael Owen gengur til liðs við félag sem hann vildi alls ekki ganga til liðs við fyrir viku. Newcastle-menn telja sig vera í fínum málum, en hugsanlega voru þeir að handsala kostnaðarsamasta lánssamning allra tíma.