Ballack ósáttur við leikaðferð Chelsea

Michael Ballack skorar úr vítaspyrnu fyrir Chelsea.
Michael Ballack skorar úr vítaspyrnu fyrir Chelsea. Reuters

Þýski knattspyrnumaðurinn Michael Ballack segir að það sé leikaðferð Chelsea að kenna að hann hefur ekki náð að blómstra til þessa í liði Englandsmeistaranna. Ballack kom til Chelsea frá Bayern München í sumar en hefur ekki náð sér vel á strik með liðinu.

„Ég var að vonast til þess að fá meira af háum fyrirgjöfum svo að ég gæti skorað skallamörk. Hjá Bayern var leikaðferðin svipuð en samt mikið meira um fyrirgjafir. Ég átti von á því að bakverðir Chelsea, sérstaklega Ashley Cole, myndu gefa sóknarleik okkar meiri breidd en það hefur ekki verið raunin. Bakverðirnir hjá liðinu koma ekki eins framarlega og ég var vanur hjá Bayern.

Og þegar við breytum til og spilum með kantmenn, þá eru þeir þannig að þeir vilja frekar reyna að leika sjálfir með boltann inní vítateiginn og freista þess að skora sjálfir, í stað þess að senda hann fyrir markið. Fyrir vikið næ ég ekki að nýta mína helstu styrkleika, eins og að taka við fyrirgjöfum og skora skallamörk," sagði Ballack sem hefur skorað þrjú mörk í 15 deildaleikjum með Chelsea í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert