Enski dómarinn Graham Poll dæmir sinn síðasta leik á ferlinum á miðvikudaginn þegar hann dæmir leik Finna og Belga í undankeppni Evrópumótsins. Poll, sem er 43 ára gamall, hefur verið í hópi bestu dómara Englands mörgun undanfarin ár en ferill hans spannar 12 ár.
Poll dæmdi sinn síðasta leik á enskri grund á Wembley í gær þegar hann dæmdi úrslitaleik Derby og WBA um laus sæti í ensku úrvalsdeildinni.
Hann hefur þótt umdeildur dómari en enginn hefur efast um hæfni hans. Poll hefur á sínum ferli dæmt meðal annars fyrsta úrslitaleikinn í bikarkeppninni á Þúsaldarvellinum í Cardiff, hann dæmdi úrslitaleikinn í UEFA-keppninni fyrir tveimur árum og dæmdi tvívegis í úrslitakeppni HM.
Poll var mikið í sviðsljósinu á HM í Þýskalandi á síðasta ári en þar varð honum á þau mistök að veita Króatanum Josip Simunic þrjú gul spjöld og var eftir þann leik sendur heim.