Arsenal lagði Chelsea að velli, 1:0, í gífurlega spennandi leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum, heimavelli Arsenal, í dag. Arsenal er því á ný í efsta sætinu.
William Gallas skoraði sigurmarkið í uppbótartíma í fyrri hálfleik og leikurinn var hreinlega rafmagnaður síðustu 15 mínúturnar. Liðin fengu dauðafæri á víxl þegar Chelsea freistaði þess að jafna og Arsenal hefði getað bætt við forystuna.
Arsenal er með 40 stig á toppnum og Manchester United 39 en Chelsea situr eftir í þriðja sætinu með 34 stig.
Shaun Wright-Phillips átti fyrsta hættulega færið fyrir Chelsea á 13. mínútu þegar hann lék upp völlinn og skaut af 20 m færi en Manuel Almunia markvörður Arsenal varði vel.
Emmanuel Adebayor hjá Arsenal fékk gula spjaldið fyrir brot á 25. mínútu.
John Terry og Frank Lampard hjá Chelsea fengu báðir gula spjaldið á 30. mínútu en þá munaði litlu að margir leikmenn lentu í stimpingum eftir brot við vítateig Chelsea. Cesc Fabregas tók aukaspyrnuna en skaut yfir mark Chelsea.
Andriy Shevchenko átti þrumuskot á mark Arsenal á 33. mínútu af 20 m færi en Almunia varði vel.
Emmanuel Eboue hjá Arsenal fékk gula spjaldið á 35. mínútu fyrir að brjóta illa á John Terry.
Tomás Rosický átti þrumuskot að marki Chelsea á 37. mínútu en rétt framhjá stönginni vinstra megin.
John Terry fyrirliði Chelsea fór meiddur af velli á 38. mínútu, í kjölfarið á broti Eboues, og Tal Ben-Haim kom í hans stað.
Arsenal komst yfir, 1:0, þegar tvær mínútur voru komnar framyfir leiktímann í fyrri hálfleik. William Gallas, fyrirliði Arsenal, skoraði markið með skalla eftir hornspyrnu frá Cesc Fabregas og staðan 1:0 í hálfleik.
Mikel John Obi átti hörkuskot að marki Arsenal, rétt utan vítateigs, á 60. mínútu en Manuel Almunia varði vel í markhorninu niðri.
Mathieu Flamini hjá Arsenal fékk gula spjaldið fyrir brot á 63. mínútu.
Joe Cole hjá Chelsea fékk gula spjaldið fyrir brot á 67. mínútu. Hann braut á Emmanuel Eboue sem lá eftir og var borinn af velli.
Robin van Persie kom inná fyrir Eboue og strax á 71. mínútu átti hann gott skot sem Petr Cech í marki Chelsea varði naumlega.
Tal Ben-Haim hjá Chelsea fékk gula spjaldið á 73. mínútu fyrir að brjóta á Fabregas sem var á leið framhjá honum í gegnum miðja vörn Chelsea.
Shaun Wright-Phillips fékk sannkallað dauðafæri til að jafna fyrir Chelsea á 75. mínútu þegar hann skaut framhjá marki Arsenal af þriggja metra færi!
Arsenal fékk ekki síðra færi á 77. mínútu eftir glæsilega skyndisókn. Aleksandr Hleb renndi boltanum á van Persie sem var einn gegn Cech í marki Chelsea við vítapunkt en skaut yfir markið.
Mikel John Obi hjá Chelsea fékk gula spjaldið á 83. mínútu fyrir að brjóta á Mathieu Flamini, einum besta manni vallarins. Rétt á eftir var mark dæmt af Arsenal, Robin van Persie, vegna rangstöðu.
Arsenal fékk tvöfalt dauðafæri á 88. mínútu. Petr Cech varði vel frá Robin van Persie úr góðu færi, Cesc Fabregas fékk boltann á markteig og skaut en Cech varði aftur glæsilega.
Andriy Shevchenko fékk dauðafæri á 89. mínútu, skallaði eftir fyrirgjöf en Almunia varði vel. Arsenal brunaði upp og Emmanuel Adebayor skoraði en markið var dæmt af þar sem hann var talinn hafa brotið af sér. Í kjölfarið var tilkynnt að uppbótartími væri 5 mínútur.
Þegar 2 mínútur voru komnar framyfir leiktímann átti Shevchenko mikið þrumuskot úr aukaspyrnu af 25 m færi en Almunia varði glæsilega í horn með því að blaka boltanum yfir þverslána.
Fabregas fékk dauðafæri þegar 5 mínútur voru komnar framyfir leiktímann. Ashley Cole kastaði sér fyrir hann og bjargaði og þeim lenti saman í kjölfarið. Fabregas fékk gula spjaldið en spurning með Cole sem virtist slá Spánverjann í andlitið. Í kjölfarið var leikurinn flautaður af.
Lið Arsenal: Almunia, Sagna, Gallas, Toure, Clichy - Eboue (Van Persie 69.), Fabregas, Flamini, Hleb (Gilberto 77.) - Rosicky, Adebayor (Bendtner 90.)
Varamenn: Senderos, Lehmann.
Lið Chelsea: Cech - Ferreira, Alex, Terry (Ben-Haim 38.), A.Cole - Wright-Phillips (Kalou 75.), Mikel, Makelele (Pizarro 65.), Lampard, J.Cole - Shevchenko.
Varamenn: Belletti, Cudicini.
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal teflir fram miðjumönnunum Cesc Fabregas, Mathieu Flamini og Aleksandr Hleb, sem allir hafa verið frá vegna meiðsla og óvíst var hvort þeir yrðu með.