Bandaríska úrvalið sigraði West Ham

David Beckham í baráttu við þrjá leikmenn West Ham, þá …
David Beckham í baráttu við þrjá leikmenn West Ham, þá Carlton Cole, Scott Parker og Hayden Mullins, í leiknum í nótt. Reuters

Úrvalslið norður-amerísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu, með David Beckham í broddi fylkingar, sigraði enska úrvalsdeildarliðið og Íslendingafélagið West Ham, 3:2, í árlegum stjörnuleik deildarinnar sem háður var í Toronto í Kanada í nótt.

Argentínumaðurinn Christian Gomez, Mexíkóinn Cuauhtemoc Blanco og Kanadamaðurinn Dwayne De Rosario skoruðu mörk úrvalsliðsins en Dean Ashton gerði bæði mörk West Ham. Uppselt var á leikinn en tæplega 21 þúsund manns troðfylltu BMO-leikvanginn í Toronto.

MLS-úrvalið, sem er kosið af áhorfendum liðanna í deildinni, hefur unnið þennan stjörnuleik í öll skiptin sem hann hefur verið háður, frá 2003, en andstæðingarnir hafa ávallt komið frá Englandi eða Skotlandi.

Hólmar Örn Eyjólfsson, sem West Ham keypti af HK í sumar, missti af Ameríkuferð liðsins þar sem hann meiddist á æfingu rétt áður en liðið fór vestur um haf. Annar ungur varnarmaður hjá félaginu, Joe Widdowson, fékk það hlutverk að gæta Davids Beckhams í leiknum. Beckham var þrívegis nærri því að skora, tvívegis úr hættulegum aukaspyrnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert