Guðjón hentaði okkur best

Guðjón Þórðarson passaði best inní starfið að mati stjórnarmanna Crewe.
Guðjón Þórðarson passaði best inní starfið að mati stjórnarmanna Crewe. mbl.is/Kristinn

John Bowler, stjórnarformaður enska 2. deildarfélagsins Crewe Alexandra, segir að Guðjón Þórðarson hafi hentað félaginu best af þeim sem til greina komu í starf knattspyrnustjóra.

Guðjón tekur formlega við starfinu á þriðjudaginn kemur og stýrir Crewe í fyrsta skipti þegar liðið mætir Millwall í 3. umferð ensku bikarkeppninnar þann 3. janúar.

Bowler sagði í viðtali á vef Crewe að hann sé hæstánægður með að hafa ráðið til starfa þann mann sem hann hafi trú á til að lyfta félaginu uppá næsta þrep.

„Stjórnin telur að við séum með réttan mann í höndunum. Guðjón passaði best inní það hlutverk sem við ætluðum nýjum knattspyrnustjóra þegar við hófum leitina að honum. Við vildum fá mann með reynslu og góðan feril, sterkan persónuleika og drifkraft til að takast á við hörkuna í fótboltanum. Við vildum líka fá mann sem vill taka þátt í þróun ungra leikmanna því okkar lifibrauð er að ala upp okkar eigin leikmenn.

Guðjón hefur alltaf notið þess að vinna með ungum leikmönnum og það gerir okkur kleift að takast á við nýja tíma án þess að gera róttækar breytingar á því skipulagi sem hefur haldið félaginu í góðri stöðu um árabil.

Það komu einn eða tveir aðrir til greina en Guðjón hentaði best í þetta hlutverk og við erum hæstánægðir með að hafa náð samkomulagi við hann. Það voru fjölmargir sem sótt um starfið, og meðal þeirra mjög áhugaverðir ungir menn sem eru bráðefnilegir þjálfarar en höfðu ekki þá reynslu sem við töldum okkur þurfa.

Guðjón er með mikla og góða rerynslu og hefur stýrt liðum í hærri gæðaflokki en þessum. Við þekkjum hann allir frá verkum hans í Stoke og hann vann vel hjá Barnsley. Hann hefur líka þjálfað landslið Íslands og verið mjög sigursæll sem þjálfari félagsliða í heimalandi sínu. Hann hefur alla þá reynslu sem þarf til að ná árangri hjá okkur og við vonum að hann færi okkur það sem við þurfum," sagði stjórnarformaðurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert