West Ham staðfesti í dag að fyrirliðinn Lucas Neill sé á förum frá félaginu eftir að hann hafnaði tilboði félagsins um nýjan eins árs samning. Á vef West Ham er nafnalisti yfir þá leikmenn sem halda áfram og spila með liðinu á næstu leiktíð og er Neill ekki á þeim lista.
Samningur ástralska varnarmannsins rann út um mánaðarmótin og buðu forráðamenn West Ham honum framlengingu um eitt ár en því boði hafnaði Neill og er því frjálst að ræða við önnur félög.
Neill, sem er 31 árs gamall, hefur verið í herbúðum West Ham í tvö og hálft ár en Eggert Magnússon keypti hann frá Blackburn.
DiegoTristan, Lee Bowyer og Walter Lopez yfirgefa einnig Lundúnaliðið sem og lánsmennirnir David Di Michele og Radoslav Kovac.