Downes á að laga vörn West Ham

Avram Grant fær nýja aðstoðarmenn.
Avram Grant fær nýja aðstoðarmenn. Reuters

Wally Downes, einn af jöxlunum í frægu liði Wimbledon á árum áður, hefur verið ráðinn til West Ham með það hlutverk að þétta hriplega vörn Lundúnaliðsins sem situr á  botni ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Downes er ráðinn sem sérstakur varnarþjálfari og hann hefur talsverða reynslu sem slíkur. Hann vann með Steve Coppell í mörg ár, hjá Crystal Palace, Brentford og síðan hjá Reading. Með síðastnefnda félaginu var hann varnarþjálfari og náði frábærum árangri með Ívar Ingimarsson og félaga hans í vörn Reading tímabilið 2005-06 þegar liðið fékk á sig fæst mörk allra í ensku deildakeppninni og vann sér sæti í úrvalsdeildinni.

Meðal varnarmanna West Ham er Hólmar Örn Eyjólfsson, en hann hefur ekki fengið tækifæri með aðalliði félagsins til þessa.

Zeljko Petrovic, aðstoðarstjóri West Ham, var rekinn á dögunum en knattspyrnustjórinn Avram Grant fékk hinsvegar fulla traustsyfirlýsingu frá stjórn félagsins. Nú leitar West Ham að sérstökum sóknarþjálfara og þar hafa verið nefndir til sögunnar þeir Paolo Di Canio, John Hartson og Jimmy Floyd Hasselbaink.

Downes lék mestallan feril sinn með Wimbledon, eða frá 1979 til 1988, og var hluti af "Crazy Gang", eða "brjálaða genginu", sem vann sig úr neðstu deild uppí þá ensku og stóð sig þar með miklum sóma á sínum tíma. Downes þurfti að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla árið 1988, aðeins 27 ára gamall, og hefur starfað við þjálfun síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert