Ítalinn Fabio Capello hefur sagt af sér störfum sem landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu. Enska knattspyrnusambandið staðfesti þetta rétt í þessu og uppsögnin tekur þegar gildi.
Capello mætti til fundarhalda með sambandinu í dag en þar var til umræðu sú ákvörðun sambandsins að svipta John Terry fyrirliðastöðu landsliðsins, og andstaða Capellos við þá ákvörðun sem hann lýsti í viðtölum við fjölmiðla á Ítalíu.
Fabio Capello er 65 ára gamall og stjórnaði AC Milan, Real Madrid, Roma og Juventus áður en hann tók við starfi landsliðsþjálfara Englands í árslok 2007. Samningur hans, sem var framlengdur í maí 2010, átti að renna út eftir úrslitakeppni Evrópumótsins í Póllandi og Úkraínu í sumar.
Fyrstu viðbrögð frá leikmanni eru þegar komin en Jack Wilshere, leikmaður Arsenal, sagði á Twitter rétt í þessu: „Það er áfall að heyra fréttirnar um Fabio Capello, ég er gífurlega vonsvikinn. Hann valdi mig í landsliðið og hafði trú á mér. Þakka þér fyrir, herra Capello. Hver og einn hefur sína skoðun á Capello en hann hefur haft gífurleg áhrif á minn feril. Það er sárt að sjá hann fara."