Fabio Capello, sem sagði af sér sem landsliðsþjálfari Englendinga í kvöld, segir að enska knattspyrnusambandið hafi gróflega misboðið sér með því að taka ákvörðun um að svipta John Terry stöðu landsliðsfyrirliða.
„Þeir móðguðu mig og lítilsvirtu starf mitt. Það sem gerði virkilega útslagið af minni hálfu var þeirra útfærsla á hinni frægu engilsaxnesku réttvísi þar sem þeir fullyrða ávallt manna fyrstir að hver maður sé saklaus uns sekt hans er sönnuð. Í máli Terrys misbuðu þeir mér gróflega og grófu undan mér sem stjórnanda enska landsliðsins, og bjuggu til vandamál fyrir liðið," sagði Capello við ítalska netmiðilinn Italpress í kvöld.
„Ég hef aldrei þolað ákveðin afskipti þar sem farið er yfir strikið, svo það var auðvelt fyrir mig að taka þessa ákvörðun og hætta," sagði Capello ennfremur.