Stuart Pearce, þjálfari enska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, stjórnar enska A-landsliðinu í vináttulandsleik þess gegn Hollandi í lok þessa mánaðar. David Bernstein formaður enska knattspyrnusambandsins staðfesti þetta á fréttamannafundi sem nú stendur yfir.
Fram kom að sambandið ætlaði finna næsta landsliðsþjálfara eins fljótt og mögulegt væri, en næstu verkefni eru í lok maí. Þá spilar liðið tvo leiki til undirbúnings fyrir Evrópukeppnina í Úkraínu og Póllandi sem hefst 11. júní.
Bernstein sagði að allur undirbúningur enska liðsins fyrir keppnina í sumar væri í mjög góðum skorðum og auðvelt fyrir nýjan þjálfara að taka við. Hann sagði ekki tímabært að nefna nein nöfn, enda yrði fundað á morgun um framhaldið og þá lagðar línur í leitinni að næsta landsliðsþjálfara.
Bernstein sagði að það hefði alfarið verið ákvörðun Fabios Capellos að hætta störfum og hann hefði tilkynnt sambandinu það á fundi í gær, þar sem allt hefði farið fram á góðan og yfirvegaðan hátt. Capello hefðu ekki verið sett nein skilyrði af hálfu sambandsins. Í lokin hefði verið tekist í hendur og Capello hefði beðið fyrir kveðjur til leikmanna og starfsliðs.