Redknapp: Hugsa bara um Tottenham

Harry Redknapp kemur úr dómssalnum í gær.
Harry Redknapp kemur úr dómssalnum í gær. Reuters

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að hann sé ekki með hugann við neitt nema leik liðsins við Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Hann er nú sterklega orðaður við stöðu landsliðsþjálfara eftir að Fabio Capello sagði af sér í gærkvöld. Redknapp var í gær sýknaður í skattsvikamáli og þar með ekkert sem stendur í vegi fyrir honum, vilji hann taka að sér landsliðið, sem leikur á EM í sumar.

„Ég veit ekkert um landsliðsþjálfarastarfið. Ég hef ekki einu sinni leitt hugann að því. Á laugardaginn er stórleikur hjá Tottenham. Öll mín einbeiting er á Tottenham,“ sagði Redknapp í viðtali við BBC rétt í þessu.

Hann þakkaði jafnframt sérstaklega Daniel Levy, stjórnarformanni Tottenham, fyrir stuðninginn við sig í skattsvikamálinu en það hefur verið í gangi í fimm ár og var loks til lykta leitt í gær þegar Redknapp var sýknaður.

„Þegar Levy réð mig til starfa fyrir þremur árum byrjaði hann að sjálfsögðu á því að skoða málið. Hann áttaði sig á því að það var enginn fótur fyrir þessum ákærum, annars hefði hann ekki gert mig að knattspyrnustjóra Tottenham. Nú er þetta að baki og við horfum til framtíðar,“ sagði Redknapp, sem er með lið sitt í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert