Redknapp: Stjórna ekki tveimur liðum

Harry Redknapp.
Harry Redknapp. Reuters

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að það sé mikill heiður að vera orðaður við starf landsliðsþjálfara Englands. Það komi hinsvegar ekki til greina að sinna því samhliða því að stjórna liði Tottenham.

„Að sjálfsögðu er þetta mikill heiður. Það er gaman ef manni er stillt upp í þá stöðu að vera talinn eiga möguleika á þessu starfi. Þetta er heiður, ekki síst vegna þess að aðrir knattspyrnustjórar hafa sagt margt jákvætt og ég þakka allan stuðning," sagði Redknapp  við Sky Sports í dag.

En hann telur ekki hægt að þjóna tveimur herrum í einu. „Það er nógu erfitt að stjórna liði í úrvalsdeildinni, hvað þá landsliðinu þínu. Þetta eru tvö mjög erfið störf. Einbeitingin þarf að vera á einu starfi, það er ekki hægt að vera með þetta allt saman yfir sér. Sem stendur get ég ekki litið af Tottenham, því við ætlum að komast í Meistaradeildina, erum með í bikarnum, og ég skulda öllum þar að halda algjörri einbeitingu á því starfi. Það væri ekki sanngjarnt gangvart öðrum ef ég færi að hugsa um eitthvað annað," sagði Redknapp, sem var sýknaður af ákærum í meintu skattsvikamáli í fyrradag, nokkrum klukkutímum áður en Fabio Capello sagði af sér sem landsliðsþjálfari Englands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert